Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, FRÍSK, fagnar einni af breytingartillögum Samfylkingarinnar við fjárlagafrumvarpið um aukið fjármagn sem hljóðar upp á 300 mkr í svokallaðan sjónvarpssjóð (sem tekur til leikins sjónvarpsefnis undir Kvikmyndasjóði). Ofangreint er eitt að því sem FRÍSK hefur barist fyrir undanfarin ár enda sýna rannsóknir að hver króna frá ríkinu í framleiðslu sjónvarps- og kvikmyndaefnis skilar sér tvöfalt til baka.
Í vikunni greiða þingmenn atkvæði um fjárlagafrumvarpið og vill FRÍSK minna þá á að eitt af baráttumálum félagsins er að ríkið hlaupi undir bagga með íslenskum sjónvarpsstöðvum og kvikmyndahúsum í þeim tilgangi að leggja íslenskunni lið. Íslensk kvikmyndahús og sjónvarpsstöðvar eyða tæplega 500 milljónum króna á ári í talsetningu og textun á erlendu efni yfir á íslensku, auk þess að framleiða og sýna íslenskt efni. Kostnaðurinn við talsetningu og textun leggst alfarið á félagsmenn FRÍSK án stuðnings frá ríkinu. FRÍSK vill því ítreka þá ósk sína við alþingismenn að þessi kostnaður verði greiddur af ríkinu sem styrkur til þeirra aðila sem talsetja og texta efni. Nýlegar rannsóknir sýna að 83% landsmanna telja mikilvægt að erlent sjónvarps- og kvikmyndaefni sé talsett eða textað.