Helstu málefni

Umsvif sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar

Heildarvelta sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar á Íslandi er 34,5 milljarðar króna á ári samkvæmt tölum Hagstofunnar. Um er að ræða framleiðslu og dreifingu kvikmynda og sjónvarpsefnis ásamt kvikmyndasýningum, dagskrárgerð og útsendingum sjónvarps og útvarps. Heildarveltan hefur aukist um rúm 37% frá árinu 2009. Sé óbeinni veltu bætt við var hún um 45 milljarðar króna á síðasta ári. Ef einungis er litið til framleiðslu á kvikmyndum og sjónvarpsefni er veltan 15,5 milljarðar króna. Velta sjónvarps- og útvarpsefnis var 14,2 milljarðar.

Umsvif sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar hafa aukist verulega og mikil gróska í geiranum. Þetta er stór atvinnugrein og mun stærri en margir halda. Heildarvelta í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði er nánast sú sama og í mjólkur- eða kjötiðnaði á Íslandi. Hlutdeild sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar í landsframleiðslu er 0,6%, sem er litlu minni en hlutdeild íþrótta- og tómstundastarfsemi í landsframleiðslu. 

Ársverk í greininni

Fjölmörg fyrirtæki starfa á kvikmynda-, myndbanda- og sjónvarpsmarkaði á Íslandi og fjöldi fólks vinnur við greinina. Heildarfjöldi ársverka er um 1.300, sem jafnast á við þrjú stóriðjuverkefni.

Mjög margir hagnast af greininni vegna afleiddra áhrifa sem umsvif hennar hafa. Íslensk framleiðslufyrirtæki hafa sinnt stórum erlendum verkefnum sem unnið hefur verið að hér á landi og má þar nefna Star Wars, The Secret Life of Walter Mitty, Interstellar, Game of Thrones, Thor, Oblivion og Fortitude.

Helstu áherslur FRÍSK

Sjónvarpsstöðvar hafa verið ötular við það síðustu misseri að þróa viðskiptamódel sín og bjóða efni sitt með nýjum leiðum á borð við tímaflakk, myndefnisveitur og sérstök öpp til þess að neytandinn geti nálgast efni sitt á þeim stað og á þeim tíma sem honum hentar. Ef greinin á að fá að halda velli og blómstra verða eftirfarandi breytingar að eiga sér stað:

  • LÆKKUN VIRÐISAUKASKATTS: Lækka þarf virðisaukaskatt af DVD-diskum, VOD-þjónustu, myndefni eftir pöntun, sölu kvikmynda á netinu og bíómiðum úr 24% niður í 11% í samræmi við virðisaukaskattshlutfall bóka, geisladiska og áskriftargjalda.
  • SKATTSKYLDA ERLENDRA EFNISVEITNA: Skattayfirvöld þurfa að taka til skoðunar skattskyldu þeirra erlendu efnisveitna sem kjósa að veita þjónustu sína á Íslandi. Í því ljósi eru skattayfirvöld hvött til að skoða sérstaklega 35. grein laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 en þar segir að aðili með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis og selur rafrænt afhenta þjónustu skuli innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri þjónustu hér á landi.
  • AUKIN FRAMLÖG: Auka þarf framlög ríkisins til greinarinnar. Kannanir hafa sýnt að tæp 78% landsmanna vilja auka stuðning hins opinbera við sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinn með skattalækkunum og/eða Kvikmyndasjóði. Slíkar skattalækkanir myndu styrkja innlendan iðnað og auka skatttekjur ríkisins á móti að hluta vegna aukinna umsvifa. Ljóst er að framlög ríkisins til sjónvarps og kvikmyndaiðnaðarins eru um helmingi lægri en þær skatttekjur sem hið opinbera hefur af umsvifum atvinnugreinarinnar.
  • STYRKJA TALSETNINGU OG TEXTUN: Styrkja þarf fyrirtæki til talsetningar og textunar á sjónvarps- og kvikmyndaefni. Þarna ber að hafa í huga hvaða skyldur erlendar efnisveitur, t.d. Netflix, hafa í þessum efnum en þær þurfa ekki að lúta lögum um þýðingarskyldu og aldursmerkingar, svo dæmi séu tekin. Samkvæmt könnunum telja 83% landsmanna mikilvægt að erlent sjónvarps- og kvikmyndaefni sé talsett eða textað.
  • AUKIN FRAMLÖG TIL INNLENDS SJÓNVARPSEFNIS: Efla þarf styrki til framleiðslu á innlendu sjónvarpsefni og stórefla svokallaðan Sjónvarpssjóð þannig að hann verði sjálfstæður og sambærilegur við Kvikmyndasjóð.
  • AUKIN FRAMLÖG TIL KVIKMYNDASJÓÐS: Auka þarf framlög til Kvikmyndasjóðs. Kannanir sýna að tæp 78% landsmanna vilja auka stuðning hins opinbera við sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinn með skattalækkunum og/eða Kvikmyndasjóði.
  • ENDURSKOÐUN FJÖLMIÐLALAGA: Fella þarf út svokölluð „vatnaskilsákvæði“ úr lögum um fjölmiðla (28. gr.) enda bindur slíkt ákvæði hendur sjónvarpsstöðvarnar mjög og torveldar þeim að keppa við aðra sambærilega afþreyingu – þó sérstaklega erlenda aðila sem ekki eru bundnir slíkum ákvæðum.
  • AÐGERÐIR GEGN ÓLÖGLEGU NIÐURHALI: Hið opinbera þarf að hefja upplýsingarherferð ásamt fyrirtækjum í atvinnugreininni um mikilvægi þess að neytendur nálgist efni á löglegan hátt.