Íslensk kvikmynd sú vinsælasta á árinu 2016
Á árinu 2016 fóru samtals 1.420.435 manns í íslensk kvikmyndahús og er það aukning um 2,74% frá árinu 2015. Þess má geta að árið 2015 var í fyrsta skipti í fimm ár sem aukning var í aðsókn á milli ára í íslensk kvikmyndahús og hefur hún því aukist í tvö ár í röð, sem er einkar ánægjulegt. Enn er þó langt í land að hún nái metárinu 2009 þegar tæp 1,7 milljón manns fór í kvikmyndahús. Heildartekjur af kvikmyndasýningum í íslenskum kvikmyndahúsum var kr. 1.689.720.455 og er það hækkun upp á 8,9% í tekjum frá árinu 2015. Hver Íslendingur fór 4,27 sinnum í bíó á árinu og enn og aftur eru Íslendingar í hæstu hæðum þegar kemur að bíóaðsókn í heiminum. Heildaraðsókn er sérstaklega góð með tilliti til þess að Íslendingar sátu sem límdir fyrir framan sjónvarpsskjáinn í rúman mánuð um mitt síðasta sumar þegar Evrópukeppnin í knattspyrnu fór fram.
Það er gaman að segja frá því að vinsælastamynd ársins var Eiðurinn og er þetta í annað sinn á þremur árum sem íslensk mynd trónir á toppnum í íslenskum kvikmyndahúsum. Árið 2014 var það Vonarstræti. Þá má geta þess að Íslendingar komu líka við sögu á vinsælustu mynd ársins 2015, Everest, og var það jafnframt í annað sinn sem sami leikstjóri (Baltasar Kormákur) átti vinsælustu mynd ársins tvö ár í röð, en áður var það James Cameron þegar Avatar var vinsælasta myndin 2009 og 2010. Baltasar hefur í raun fjórum sinnum leikstýrt vinsælustu mynd ársins (Eiðurinn, 2016, Everest 2015, Mýrin 2006 og Hafið 2002).
Tekjur af Eiðnum voru tæpar 64 milljónir og alls komu tæp 47 þúsund manns í kvikmyndahús til að sjá myndina. Næstvinsælust var svo kvikmyndin Suicide Squad með 57 milljónir í tekjur og nýjasta Star Wars myndin, Rogue one, sem var að hluta tekin upp hér á landi, raðaði sér í þriðja sætið með 56,7 milljónir í tekjur. Þess má einnig geta að síðustu tvær Star Wars myndirnar, The Force Awakens (frumsýnd 17. des. 2015) og Rogue One (frumsýnd 16. des. 2016), sem sjá má á listanum hér að neðan, eru þegar upp var staðið tekjuhæstu myndirnar sem frumsýndar voru á viðkomandi ári. Heildarmiðasala á The Force Awakens endaði í tæpum 113 milljónum króna, sem gerir hana að tekjuhæstu mynd sem frumsýnd var á árinu 2015 og annarri tekjuhæstu mynd allra tíma (eða frá því staðfestar mælingar hófust árið 1995). Rogue One er komin í tæpar 68 milljónir og er því strax orðin tekjuhæsta myndin sem frumsýnd var á árinu 2016.
Lista yfir tuttugu vinsælustu kvikmyndirnar á árinu 2016 má sjá hér að neðan. Þess má geta að vinsældum mynda er ávallt raðað eftir tekjum en ekki aðsókn.
Frumsýndar kvikmyndir á árinu voru samtals 179 sem er sami fjöldi og á árinu 2015. Frumsýndar íslenskar kvikmyndir og heimildarmyndir voru 15 á árinu, sem er tveimur myndum fleiri en á árinu 2015. Eins og áður segir var kvikmyndin Eiðurinn þar langvinsælust en kvikmyndin Grimmd kom þar á eftir með tæpar 17,5 milljónir í tekjur og þar á eftir Fyrir framan annað fólk með rúmar 14,6 milljónir í tekjur. Vinsælasta heimildarmynd ársins var svo Jökullinn logar sem halaði inn rúmar 4,2 milljónir í kvikmyndahúsum í kringum Evrópukeppnina síðastliðið sumar. Samtals var hlutfall íslenskra kvikmynda og heimildarmynda í kvikmyndahúsum 6,6%, sem er aukning frá árinu 2015 þegar íslenskar myndir voru tæp 4,8% af markaðnum.
|
Vinsælasta kvikmyndin vestur í Bandaríkjnumum var Finding Dory en sú mynd var jafnframt sú áttunda vinsælust á Íslandi. Hlutfall bandarískra kvikmynda í íslenskum kvikmyndahúsum var óvenjuhátt á árinu 2016 eða 90% í bæði tekjum og aðsókn. Á árunum 2014 og 2015 var hlutfall bandarískra kvikmynda í kringum 85%.
Nafn | Dreifing | Frums. dagur | Tekjur | Aðsókn |
Eiðurinn | Sena | 12.9.2016 | 63,713,364 kr. | 46,786 |
Suicide Squad | Samfilm | 5.8.2016 | 57,004,417 kr. | 41,237 |
Rogue One: A Star Wars Story* | Samfilm | 16.12.2016 | 56,745,667 kr. | 42,017 |
Deadpool | Sena | 12.2.2016 | 52,198,963 kr. | 42,227 |
Fantastic Beasts and Where to Find Them* | Samfilm | 17.11.2016 | 45,607,465 kr. | 34,288 |
Bridget Jones’s baby | Myndform | 26.9.2016 | 42,065,030 kr. | 34,601 |
Captain America: Civil War | Samfilm | 29.4.2016 | 41,375,161 kr. | 30,588 |
Finding Dory | Samfilm | 16.6.2016 | 40,937,213 kr. | 37,735 |
Zootropolis | Samfilm | 26.2.2016 | 38,329,063 kr. | 38,188 |
Star Wars: The Force Awakens** | Samfilm | 18.12.2015 | 34,715,682 kr. | 26,102 |
Batman v Superman: Dawn of Justice | Samfilm | 29.3.2016 | 34,515,076 kr. | 26,115 |
Secret Life of Pets | Myndform | 8.8.2016 | 34,495,706 kr. | 33,310 |
Doctor Strange | Samfilm | 28.10.2016 | 32,577,915 kr. | 23,956 |
Trolls | Sena | 21.10.2016 | 28,660,191 kr. | 29,723 |
The Jungle Book | Samfilm | 18.4.2016 | 27,744,244 kr. | 23,092 |
Jason Bourne | Myndform | 2.8.2016 | 25,257,569 kr. | 20,504 |
Storks | Samfilm | 19.9.2016 | 24,833,265 kr. | 25,217 |
The Revenant | Sena | 20.1.2016 | 24,012,305 kr. | 19,044 |
The Legend of Tarzan | Samfilm | 8.7.2016 | 23,158,641 kr. | 17,531 |
Daddy’s Home | Samfilm | 4.1.2016 | 22,877,936 kr. | 19,707 |
*Kvikmynd enn í sýningu svo ekki er um heildartölur að ræða.
**Frumsýnd 2015. Einungis er um tekjur á árinu 2016 að ræða.